Monday, October 24, 2005

...uppbrotin leiðindi

... hugsaði ég, svona mánudagar eiga það ekki skilið að líða óáreittir. Ég er nú samt þannig upp alinn, og viti borinn að ég hætti mér ekki út í neina háðska umræðu í tilefni dagsins. Ég var í sundi og spáði fram og aftur, hvernig það væri hægt að skjóta aðeins á hitt kynið. Öll þessi samkennd, hvað allir voru viðbjóðslega sammála, ógeðslegt. Þetta er eins og í ævintýrinu hamingja í hólunum.
Ég rölti í sturtuklefann, uppfullur af samkennd, horfði í kringum mig og sagði: "Jæja strákar, hver nennir að sápa mig?"

Spurning hvort að ég þurfi að finna mér nýja hverfislaug.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, October 22, 2005

...wonderland og æsland

Ég var að horfa á bíómyndina Wonderland í gær. Kvikmynd um hrottaleg morð í ... já þið giskuðuð rétt, Wonderland. Miðpunktur athyglinnar er klámmyndastjarnan John Holmes. Fantafín mynd, ég mæli með henni. Á leiðinni í rúmið, fór ég allt í einu að sjá margt sameiginlegt með mér og John.

Hann var uppdópaður af heróíni og kókaíni, ég af Panodil hot.
Hann var viðriðin hrottaleg morð á félögum sínum, ég tæmdi lífsandann úr tveimur Samuel Adams.
Hann var frægur fyrir að vera langur, ég bókstaflega heiti það.
Svo duttu mér í hug eitt eða tvö atriði í viðbót sem við erum ekkert að opinbera hér.

Hvað um það.
Nýjasta tískubylgjan hér á landi er orðaröðin "svona ummæli dæma sig alveg sjálf".
Ég gæti gubbað, æsist upp í að öskra á sjónvarpið "haltu þá bara kjafti b*** þín/þinn, og láttu þig hverfa".

Af hverju segir þetta fólk ekki bara:

"Ég hef ekki nærri því nógu og góða þekkingu á því sem ég er að tala um, en ég vil alltaf vera ósammála þessari persónu!"
Ignorant bastards.

Hélt að ég hefði mikið um þetta að segja, en ég fæ alveg gæsahúð á heilann við að hugsa um þetta pakk og nenni ekki að fórna meiru af þessum fallega laugardegi í svona hugræður.

Hugræða, er líka mjög gott orð, en er ekki til í orðabókinni.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, October 20, 2005

...óbétin

er orðið sem maður á að nota þegar maður étur sér til óbóta.
Eins og fólk sumt fólk er vant að segja þegar það er búið að borða yfir sig: "Nú, borðaði ég of mikið!"
Borðar svo jafnmikið, næst líka. En það er önnur saga. Átti yndislega kvöldstund með tveimur konum sem eru alveg magnaðar persónur. Ef að það væru fleiri eins og þær, væri heimurinn öðruvísi, það get ég sagt ykkur.
Get að vísu ekki hugsað alveg rökrétt, því að nautasteikin þenur út magann, sem þrýstir á þvagblöðruna þannig að ég pissa á kortersfresti. Ég er hræddur um að baunabelgirnir og gulræturnar séu að vaxa upp í öfuga átt. Bökuðu kartöflurnar og gráðostasveppirnir eru einhversstaðar annars staðar, og skekkja dómgreindina. Ísinn, rjóminn, súkkulaðið, jarðaberin og bláberin... ég veit ekkert hvar ég kom þeim fyrir... og kaffið er bara útum allt.
ég verð að skríða inn í rúm.

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, October 12, 2005

...hundrað þúsund ár

Í mörg ár varð ég ekki var við að eitthvað væri öðruvísi við leiðina í vinnuna.
Svefndrukkin augu, fókuseruð á bílinn fyrir framan, eða götuna sem æddi undir mig. Engin breyting á því.
Einn daginn, rak ég þó augun í risastórt nef, á stærð við mig. Upprisið úr samkrulli moldarbarðs og kletta.
Árin liðu og smám saman kom meira í ljós, að þúsund árum liðnum hafði höfuðið risið úr flaginu. Risastórt og reisulegt. Hátt gáfulegt enni, stingandi augu, og ef ég var seint á ferðinni, þá sá ég oft glettið bros.
Þúsund ár liðu í hrönnum og alltaf reis maðurinn betur og betur úr jörðinni, háls, axlir og brjóstkassi. Mér fannst það alveg magnað, hvað hann sýndi sterka stóíska ró, á meðan hann beið fæðingar, ef svo má að orði komast.
Núna áðan, keyrði ég fram á manninn, þar sem hann sat á hækjum sér, grátandi.
Furðulostinn stöðvaði ég bílinn og "missti mig og til hennar gekk, um axlir hennar tók það á hana fékk" - lega gekk til hans og spurði hvað amaði að.
Aumingja maðurinn var í bullandi sjálfhverfukrísu, yfir því að vera alltaf kallaður "móðir náttúra".

Svona er lífið, dropinn meitlar steininn, að lokum.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, October 09, 2005

...áhugavert eða kannski ekki svo mjög

en það er líklega afar persónuleg skoðun.

Ég fékk afar áhugaverða spurningu í anóní kommentakerfinu mínu í síðustu færslu.

Anonymous said...

Langi-sledi!
Af hverju ertu svona einsog þú ert?
hver er ástæða þess að blár er blár, grænn er grænn og þú einsog þú?

Vísindalega, eru mjög margar ástæður á bakvið liti, ég las það einhvern tímann. Ástæðum lita er hægt að skipta í fimm flokkar og fimmtán undirflokka. Man þetta ekki svo gjörla.
En þá er ekki tekið tillit til þess, þegar sálin verður blá, eða þegar vorið vex innra með þér og blómstrar. Eða þegar brimið brýst fram úr augnkrókunum. Glóandi áhugi, brennandi þrá, allt á þetta sína einkennisliti.

En af hverju er ég eins og ég er, það er miklu flóknari og erfiðari spurning. Skrítið að blanda þessum tveim saman.
Að hvaða leiti velur fólk þá hluti sem hafa áhrif á það, skilgreina sig og að hve miklu leiti gerist það ósjálfrátt.
Og fyrst við erum komin út í þessa umræðu, hver erum við, hvortsemer?
Er ég eitthvað frekar það sem ég held mig vera eða það sem þið haldið mig vera?

Sápuópera var með fyrirlestur um mennskuna um daginn, og kannski hefur hún rétt fyrir sér. Er ég kannski aðeins og ákkúrat það sem hún heldur mig vera?
Nei líklega ekki. Felur þetta í sér að tvær manneskjur sem gera nákvæmlega sömu hlutina, verði sama manneskjan? Kannski ætti ég að hætta að kalla mig Langa Sleða, og kalla mig bara ...Anóní... nú eða Benóní.

Nei, ég held að skilgreiningar af þessu tagi virki aldrei í samfélaginu, ekki frekar en stjörnuspáin.

En að íhuguðu máli þá get ég sagt eftirfarandi.
Ég er það sem ég er, að örlitlum hluta til, vegna þess að ég skilgreini mig sem þessa manneskju, að hluta til hluti af því sem allir aðrir skilgreina mig á mismunandi hátt. Persónubundið.

... og kannski .... en vertu þó ekk'of viss,
heyrist bank, dingl, um lúgu læðist ...ég.

Kannski er ég bara misskilinn í kúlinu eftir allt saman.
Hvað um það!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, October 05, 2005

...örlög

Mér leiddist í vinnunni og ákvað að hætta snemma í dag, ákvað að fara til klippara´og svo í sund. Ég er búinn að segja það 10 sinnum, ef ekki oftar, að þetta hafi verið í síðasta sinn sem ég heimsæki hann. Síðast drap hann mig úr leiðindum með því að vera að röfla um landbúnað og mjólkurkvóta.

Allavega

Á leiðinni hringdi ég í litla bróður minn. Töluðum um bíla og hárgreiðslu, svona eins og karlmenn gera venjulega. Hann var einmitt á leiðinni í klippingu og þegar ég ætlaði að tjá honum hvað það væri fyndin tilviljun þá slitnaði samtalið.

Tilviljun? Bíddu.

Ég stoppaði fyrir utan klipparann og sá að hann hafði skrifað miða á hurðina!
"Skrapp í 5 mín"
Ég beið í 10 mínútur og keyrði svo öskuillur í burtu. Nú fer ég ekki þangað aftur!
ALDREI.

Tilviljun? Bíddu.

Ég kom heim og kveikti á tölvunni. Var búinn að lofa sjálfum mér að fara í sund, en ákvað að taka einn backgammon leik á netinu. Leikur sem ég er fyrir löngu búinn að mastera. En hvað um það.
Allt í einu fer rafmagnið af allri borginni. Tölvan og allt dautt. Það var svo gersamlega rafmagnslaust að það var slökkt á ljósum bílanna.
Ok ... ekki alveg kannski en ég sá að götuljósin voru óvirk og það var chaos úti.
Ég var semsagt á leiðinni í sund.

Tilviljun? Bíddu.

Ég settist út í bíl og fór að hugsa, hvaða leið væri nú auðveldast að fara, öll ljós óvirk og svoleiðis.
Þá keyrði framhjá mér lítill grænn Hyundai, sem aldrei hafði verið fagur fífill. Þessi bíll var á undan mér alla leiðina og við völdum þessa fínu leið í Laugardalinn.
Ekki nóg með það, ég var undan að leggja í stæði, og dúndíinn (skemmtilegt gæluorð fyrir Hyundai), lagði við hliðina á mér. Ég steig út og rak augun í límmiða á stuðaranum. "Follow Jesus!"

Tilviljun? Varla.

Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn frekar spenntur þegar ég gekk í heita pottinn. Hvað var það sem var svona mikilvægt?
Af hverju þurfti ég að vera í sundi í dag?
Ég settist í góða hornið mitt og beið átekta.

Fyrst komu einhver ógrynni af börnum sem fannst mjög gaman að vera amalega nálægt mér. Mér leið svona eins og öxlinum í hringekju sem snýst alltaf hraðar og hraðar.

Ekki var það þetta!

Spennan var stöðug, en ég hafði ekki tíma til að vera í sundi lengur, því að ég ætlaði að sjá vetrarkoss, á kvikmyndahátíð.
Myndin mjög góð, en sessunauturinn alveg ömurlegur, því 12 ára stelpa með pabba sínum, gerði ekkert nema að senda sms, og spyrja pabba sinn hvað væri að gerast.
Foreldrar, hvernig væri að virða útivistartíma barna! ha?

Ekki var það þetta!

Þegar ég kom út úr bíó, beið mín símtal. Vinkona mín, fræg kona út í bæ, og atorkukona, hafði séð utan á séð og heyrt (reyndar grunar mig að hún hafi keypt það) en hún játaði bara veruleg súkkulaðikaup. Hún tjáði mér að á forsíðu blaðsins væri Idolkeppandi sem við bæði þekktum. Þetta er þjóðverji, einn af mörgum. En það sem gerir hann sérstakan er að hann er í minni fyrstu bloggfærslu og kannski ein af ástæðum þess að ég sprakk svona útum allt á netið (sjáið færsluna hér).

Já lífið er skrítið og vegirnir órannsakanlegir.

En hvað um það!

Þekkið þið góðan klippara?

Góðar stundir

Langi Sleði

...mistök

Ég veit ekki hvað er að líkamanum þessa dagana. Fyrst þurfti hann að fá gleraugu, sem eru ekki enn komin.

En í morgun tók steininn úr, ég vaknaði með vogris, í staðinn fyrir þetta venjulega ris.

Þetta er náttúrulega engin hemja.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, October 03, 2005

... hin hliðin

þið verðið að lesa líka hina hliðina

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, October 01, 2005

...og fjallið sagði: Ókei!

og gafst upp á að bíða eftir Mér.

En fjallið fann loks leið til að eyða mínu persónulega atgervi.

Ég var orðinn eins og nýfæddur músarungi, hálfblindur og hárlaus, þegar ég rambaði loks inn á mann sem stakk tækjum framan í mig og fór að spyrja mig út í punkta. Ég hélt fyrst að hann væri einhver perri með leoparda-fetish, þegar hann sagði: "Þú sérð bæði skakkt og illa". Hókus pókus og hann opnaði heiminn.

Hálfum mánuði síðar, fékk ég vinkonu mína til að fara með mér að velja gleraugu, enda er hún þekkt fyrir smekklegheit. Já, og reyndar miklu meira, en við látum það liggja á milli hluta í bili.
En.
Í búðinni var kona á léttasta skeiðinu.

Langi Sleði: "Góðan dag mig vantar gleraugu"
Búðarkona: "Frábært, hvað ertu með nærsýni, fjærsýni, sjónskekkju?"

Langi Sleði: "allt saman bara"

Sagði ég og rétti henni miðann sem sjónglerjafræðingurinn lét mig fá um daginn.

Búðarkona: "látum okkur nú sjá, ég ætla ekki einu sinni að sýna þér ÞESSA umgjörð því hún er svo dýr... má ég samt sjá hana á þér"

Hún rétti mér umgjörðina og horfði á vinkonu mína.

Henni var náttúrulega alveg nákvæmlega sama hvað umgjörðin kostaði og þegar búðarkonan sá engin viðbrögð frá henni. Vissi hún að ég mátti alveg eyða svona peningum í umgjörð.

Í staðinn fyrir að spyrja bara!

En þetta átti eftir að versna.
Hér eftir var ég bara til í þriðju persónu eintölu.

Ég mátaði 4-5 umgjarðir og svo sagði hún við konuna mína: "Ég er alveg búin að sjá hvað ég myndi velja á hann". Svo fór hún að vinna í að mýkja upp konuna mína með því að dást að því hvað við værum bæði haust.
Að lokum voru þær að máta gleraugu á hvor aðra, og ég stóð með tvær umgjarðir í hendinni álíka merkilegur búðarpoki útí horni. Sem þó mátti ekki gleymast.

Það fór svo að ég valdi aðra umgjörðina, kom ekki á óvart að það sama umgjörð og búðarkonan valdi, enda ég búinn að missa allt sjálf.
Loks skrifaði hún svo reikninginn og ég rétti henni kortið mitt.
Svo virtist sem meira að segja kortið hafði tapað sjálfinu og og reikningstofa bankanna nennti ekki einu sinni að svara mér. Svona eins og þegar sjálfið er orðið svo lítið að sjálfvirkir hurðaopnarar, nenna ekki að virka fyrir mann.
Að lokum rann þetta þó í gegn og mér var leiðbeint út úr búðinni.
Settumst svo þrjú á notalegt kaffihús þar sem við ræddum meðal annars hverfitregðu karlmannssjálfsins í hjónabandi. Hvað er eiginlega að ykkur konum! Þetta endalausa röfl um jafnrétti. Er ykkur alvara? Þið stjórnið heiminum.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter