Tuesday, January 31, 2006

...svart og sykurlaust

...af gefnu tilefni var kaffið í dag, svart og sykurlaust. Þrettán ósögð orð. Org í þrálátum bríma. Brimvar.
Hólmgöngumaður, friðsæll og einfaldur en sigurvegari.

En að léttara hjali.

Fór að versla í dag eða öllu heldur fór svangur að versla. Kom svo heim og eldaði spaghetti bolognese fyrir 20 manns.
Keypti einhver reiðinnar býsn af allskonar dóti. Sælgæti í yfirgnæfandi meirihluta.
Ég, spýtukallinn eins og búlimíusjúklingur sokkinn í sef undarlegra útláta. Hef svo einhvern veginn enga sérstaka lyst á þessu.
Vantar bara lækni og sjúkrabíl alveg eins og skot.

Heimsótti ömmu á föstudaginn.

Langi Sleði: Jæja, þú hefur ekki horft á handboltann í gær?
Amma: Nei, ég þori það ekki. Ég er svo hjartveik.
Langi Sleði: Ha?
Amma: Það var svo gott þegar afi þinn var á lífi, þá gat ég látið hann horfa á með mér. Það var svo gott.
Langi Sleði: Já, ég veit..en!
Amma: ...og hann horfði á með mér blessaður, þótt hann hefði engan áhuga á þessu íþróttabrölti mínu.
Langi Sleði: Já, en amma þú ert ekkert hjartveik og hefur aldrei verið!
Amma: Jahh, þú segir það!...

Hún er svo dásamleg þessi kona!

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, January 22, 2006

...eldur

...Ég starði í kertaljósið og einhvern veginn truflaði það mig, að yfir eldi byggi þessi mikla ró.
Þessi stóíska ró sem getur orðið allsráðandi, tekið umhverfið í sinn faðm og... þið vitið hvað ég er að tala um, er það ekki?
Konur eru aldrei fallegri en í ljósinu frá eldi.
Það var ekki regla sem ég bjó til, en eitt sinn fékk ég þá fantafínu hugmynd um að ganga með kveikjara á mér. Það virkaði fínt!
Hinsvegar er líka til eldur sem ekki brennir... hluti. Bara fólk.
...þið vitið hvað ég er að tala um.

Góðar stundir
Langi Sleði

...var að lesa moggann

... og finn mig knúinn til að óska depressíva mannhelvítinu sem sér um sjónvarpsdagskrána til hamingju, með laugardagskvöldið. Þetta myndaval lyktar eins og eitthvað sem vinirnir hafa manað hann til að gera... af því það er fyndið.

mynd nr eitt.
Sandra Bullock, alkóhólisti í meðferð. Líklega ekkert verra til.
mynd nr. tvö.
jú. JLo, lögga að reyna að væla út kall til að ríða sér, en hann er ekki til í það því hann er nýbúinn að drepa fjölskylduna í bílslysi.
mynd nr. þrjú.
og til að toppa allt! Fjórar systur vistaðar á þvottahúsi og barðar í buff þar til þær brotna niður.

svo er fólk nauðugt látið borga fyrir þetta í þokkabót.
Fokkalega.
Gerið eitthvað annað í kvöld en að horfa á sjónvarpið.

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, January 17, 2006

...fábjánar og fögur fljóð

...það að rembast með öðrum karlmanni. Hljómar mjög illa í mín eyru. Kallið það fordóma, kallið það hvað sem er.
Ég lenti einmitt í því í gær að hjálpa leigubílstjóra að losa bílinn úr skafli, eftir að hann hafði á einhvern fáránlegan hátt... ekki verið að horfa í baksýnisspegilinn. og reynt að bakka yfir fjall í innkeyrslunni minni.
Fábjáni.

Ég var að koma af æfingu, sveittur og ósturtaður, keyrði framhjá honum, lagði bílnum og gekk til hans, þar sem hann sat inn í bíl.

Langi Sleði: Sæll, varstu að festa þig?
Leigubílsstjóri (sat inní bíl): Já, þetta var bölvaður asnaskapur!
LS: Eigum við að reyna að ýta þér?
LBS: Já, endilega, ég held það þurfi ekki nema smápúss, ég finn að þetta er alveg að koma.
LS: Ok, flott!

Þegar hann steig út, sá ég mann um fertugt í formúlu eitt jakka. Jesús, hvað þetta er hallærisleg sjón hugsaði ég. Við völdum okkur góða ýtistaði og hann setti í gír. Bíllinn hinsvegar sat á kviðnum og af þeim sökum haggaðist hann ekki um millimeter. Enda leit það þannig út að hann hafi setið dágóða stund inní bílnum, spólandi eins og fábjáni.

LBS: Djöfull, þetta er alveg að koma hjá okkur, ef við hefðum mottur eða dúk, þá væri þetta ekkert mál.
LS: (hugsaði fábjáni!) Ertu ekki með mottur í bílnum?
LBS: Nei!...

LBS: Eða, jú... auðvitað er ég með bílamotturnar, ég get notað þær!

Þegar hér var komið sögu, var ég búinn að uppgötva það að aumingja maðurinn var enginn mannvitsbrekka heldur fábjáni og þegar hann fór að hamast á frambrettinu á bílnum, þvert á akstursstefnuna. Var ég búinn að gera mér grein fyrir því að þessi maður þyrfti miklu meira en bara smáhjálp. Þegar hann var búinn að beygla frambrettið, með þessum óskiljanlegu ýtingum sínum, sem ég veit ekki hverju átti að skila.
Fábjáni.

LS: Jæja, ég held að það sé ljóst að þú þurfir að hringja í einhvern vin þinn á fjórhjóladrifnum bíl til að kippa í þig.
LBS: Þeir eru allir í fríi!
LS: (Fábjáni hugsaði ég) Frábært, þá ættu þeir allir að komast, nema ég held að einn sé nóg!

Þar sem mér var orðið skítkalt, enda íþróttafötin gegndrepa af svita eftir æfinguna. Snéri ég mér að honum og kallaði, "þú reddar þessu mér er orðið skítkalt!" ... með þessum orðum kvaddi ég LBS.

Á leiðinni upp, kallaði ég hann amk 10 sinnum fábjána í huganum í viðbót en þegar ég var kominn í sturtu var ég sem betur fer hættur að hugsa um hann.
Þangað til að ég heyrði hvæsið í vél leigubílsins. Þá var hann sestur inn í bílinn, og hafði bara sett allt í botn. Þá bættist við töluna, 17-28 fábjánar.
(Mér rennur nefnilega svo fljótt reiðin að það er ekki efni nema í nokkra fábjána í einu).

Allavegana. Mannhelvítið gat átt sig.

Ég þekki menn, sem bókstaflega keyra um höfuðborgina á jeppunum sínum á svona dögum, til að hjálpa fólki að losa sig. Og ef þeir eiga ekki jeppa,... þá hjálpa þeir bara konum. Það er nefnilega þannig með sætar konur og brjóstin þeirra. Að þau virka mjög hvetjandi.
Til dæmis ýtir einn karl og falleg kona mun fastar en tveir karlar, þótt konan ýti ekki.
Þannig er það bara.
Nægjanlega falleg kona, við myndum reyna allt, ég hef til dæmis gert eftirfarandi til að aðstoða konu í neyð (topp 5 listinn);
1. Ég dansaði regndans sem skilaði því að allur snjór bráðnaði í kringum bílinn hennar og hún gat keyrt örugg í burt.
2. Ég skreið undir bílinn hennar og gróf allan snjó í burtu.
3. Ég hækkaði bílinn hennar upp og setti í hann fjórhjóladrif í leiðinni.
4. Ég tók bílinn hennar í sundur og stykki fyrir stykki endurbyggði ég hann í öruggu umhverfi.
5. Ég tjakkaði bílinn upp að framan, borgaði tveimur rónum fyrir að leggjast undir framdekkin svo hún gæti keyrt áfram án þess að spóla (sem tókst svona í helstu aðalatriðum).

... og svo eru svona leigubílstjórafábjánar að eyða tímanum manns í vitleysu.

Kallhelvítið hefur ekki viljað hringja á hjálp, því hann yrði aðhlátursefni og aðalumræðuefnið á öllum leigubílastöðvum, árshátíðum og svo framvegis.
Fábjáni.

Góðar stundir
Langi Sleði

...göfugt

...allar mannanna skepnur, eru einhvern veginn eins. Ég hitti á magnaðan þátt um snæhlébarða í sjónvarpinu í gær.

Þrátt fyrir þessi mögnuðu dýr, sem lifa fyrir ofan 1800 m.y.s. í Asíu mikið til. Fannst mér samt miklu merkilegra að fylgjast með fólkinu sem var að leita hans. Eftir þrjár vikur í leit, höfðu þeir ekki séð einn einasta kisa. Enda fellur hann algerlega inn í landslagið. Einu skotin voru kyrrmyndir af fjöllum, þar sem maður gat rýnt og ... séð grjót...
Að lokum notuðu þeir hreyfingaskynjanlegar upptökuvélar til að taka upp hvern einasta maur sem átti leið um svæðið, og að lokum sáu þeir snæhlébarða... á myndbandi.
Það kom svo í ljós að þeim þótti gott að núa trýninu í eina ákveðna klettasnös og senda svo hlandskvettu með.
Í dag er þetta fullkomlega sambærilegt við að troða myndabrosinu í Séð og Heyrt. Spurning um hvort að við ættum nokkuð að nota orðið göfugt í þessum pistli eftir allt saman!

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, January 13, 2006

...get ekki orða bundist

...eftirfarandi fréttir eru teknar af vef vísis.is

NFS, 13. Jan. 2006 10:25
'Banaslys á Sæbraut',
Banaslys varð á níunda tímanum í morgun þegar........................

---------------------
NFS, 13. Jan. 2006 12:04
'Umferð hefur gengið vel þrátt fyrir minniháttar árekstra
Alls hafa um tíu árekstrar orðið í................

-----------------------
hver var eiginlega þessi minniháttar maður???
Líklega enn einn perrinn bara!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, January 11, 2006

...hún er gefin fyrir drama

...þessi dama.
Loksins loksins loksins.
Nú teljum við niður dagana þar til umræðan um ... hann ... er gleymd og ... já, grafin.

Þetta minnti mig á aðra meinlausari sögu, sem ég átti eftir að segja ykkur.

Þannig er það að sumar sögur, koma í ljós eins og flugur sækja í ljós. Maður þarf bara að horfa í áttina að ljósinu.
Aðrar sögur býr maður til, eins og pottaleppa handa mömmu sinni.
Enn aðrar sögur, dúndrast framan í mann, eins og blautur þvottapoki, allt of snemma morguns og gersamlega óumbeðinn.

Þetta er einmitt svoleiðis saga.

Ég var að koma heim úr júnísexíal saumaklúbbi eða af spilakvöldi með vinunum. Þið veljið hvort heldur sem er meira töff. Því Langi Sleði leggur mikið upp úr því að vera hipp og kúl í augum lesenda sinna.
...hvað um það.
Ég rölti þetta kvöld, upp í áttina að himnaríki. Sömu fjórar hæðir og hafa venjulega fært mig í varnarvirki sálarinnar. Fyrir ofan mig býr enginn nema Guð og kallinn sem leigir herbergi með aðgangi að salerni. Ég veit ekki hvort það sé af því hann reyki pípu en mig grunar það.
...hvað um það.
Á þriðju hæð, fer ég að verða var við megna pípulykt.
Var hann að reykja á ganginum? Hugsaði ég.
Hann hefur líklega verið að bíða eftir einhverjum í ganginum niðri og bara smellt sér í pípu, það er nú kannski engin dauðasök.
Rétt í þann mund sem ég er að stinga lyklinum í skránna (allt mjög erótískt), heyri ég þrusk. Ég hinkra stundarkorn og heyri þá aftur þrusk.
Þá datt mér í hug að nágranni minn, lægi ölóður á efsta pallinum, með logandi pípu í öðru munnvikinu.
Ég áréð að kíkja upp á efstu hæð og er ég sný mér við, þegar ég er hálfnaður upp stigann, sé ég nágranna minn skjótast inn um hurðina.
...hvað um það.
Nú geri ég pásu. Stend upp og fæ mér whiskýstaup... Þið skiljið, innan tíðar.
...
..
Nágranni minn skaust í gegnum dyrnar sínar, íklæddur muskubleikri korsellettu, með bláum slaufum, einum fata.
Á höfðinu var hann með svarta hárkollu, af ódýrustu gerð og hann hafði ekki einu sinni haft fyrir því að greiða sér almennilega.
Eitt enn... hann hélt á pípunni.
Einhvern veginn var mín fyrst hugsun, ég vissi að hann væri að reykja! En þær hugsanir sem seinna meir bættust í hópinn, áttu ekkert skylt við reykingar.

Núna, líklega mánuði síðar, veit ég ekki enn hvernig ég mun bregðast við er ég faðma dökkhærða stúlku í muskubleikri korsellettu. Það er allavegana ekki á dagskrá... Í laaaangan laangan tíma.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, January 09, 2006

...tónleikaviðbót

...því miður eru ekki til nógu dásamleg lýsingarorð til að lýsa þessum tónleikum. Ég fékk svo mikla gæsahúð að hárin stungust í gegnum peysuna og ollu mér töluverðum vandræðum þegar ég háttaði um kvöldið. Síðari hluta tónleikanna einbeitti ég mér að því að stækka hendurnar... svo ég gæti klappað hærra.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, January 08, 2006

...tónleikar

...þið eruð líklega í þann mund að missa af bestu tónleikum ársins. Ég er búinn að hlakka til síðan í nóvember að hlusta á Tallis Scholars. Þetta er kór sem er líklega viðurkenndur sem fremsti kór á sínu sviði í heiminum. Þessi tónlist, er bara himnesk. Hér getið þið hlustað á tóndæmi.
Hins vegar, áttu hvorki tólf tónar né skífudruslan einn einasta disk með þessum snillingum. Enda var klassísk tónlist nánast lögð niður, þegar Japis dó. Það að klassísku deildirnar deyi hér á Íslandi... er það ekki að segja okkur að klassíska fólkið sé að stela músík? Það er allavegana í samræmi við skífuheimspekina.
Ég pantaði mér því nokkra diska í gegnum amazon...og svo.. nokkra öðruvísi diska... og svo bækur...ohhh... Það er aldrei hægt að kaupa eitthvað eitt á amazon. Það virkjast einhvern veginn í mér kaupkvengenið. Kannski að það sé ekki tilviljun að lykilorðið mitt á amazon sé kaupakonanhansbensaígröf.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, January 05, 2006

...það sem skiptir mig ekki máli

...gerir það í alvöru ekki.
Og hvað í fjandanum þýðir það? Gætuð þið spurt!
Þýðir það nokkurn skapaðan hlut yfirleitt?
Jú, við þekkjum öll þetta fólk sem rembist við að hafa skoðun á nákvæmlega öllu. Stjórnmálamenn eru til dæmis öfgadæmi, þar sem þeim er borgað fyrir að hafa skoðun á öllu. Hinar öfgarnar eru náttúrulega fréttamenn, sem er borgað fyrir að hafa neinar skoðanir (sem þeim gengur nú ekkert voðalega vel með heldur).
Við erum flest þarna einhversstaðar á milli.
En...þetta vitum við og er nákvæmlega ekki áhugavert.
Það sem mér finnst skemmtilegt, er hvernig þetta kemur fram hjá okkur hinum.
Ég pæli til dæmis aldrei í því hvernig mjólk ég kaupi (blá eða gul eða fjör), bara ekki undanrennu, samt vel ég appelsínusafa af mikilli kostgæfni.
...
..
.
Ég var kominn með langan lista af hlutum sem furðulega, skipta mig máli og hlutum sem skipta mig engu máli.
Heildarmálið og það sem mig langar að segja ykkur frá hér er að ég er mjög meðvitað utan við mig í þeim málum sem skipta mig ekki máli. Einn af þessum og þeim hlutum snýst um sjampó. Mér er nákvæmlega sama hvaða sjampóbrúsa ég kaupi. Ég er dökkhærður og er með slétt venjulegt hár. Það er ekkert langt síðan ég uppgötvaði að sum sjampó eru fyrir þurrt hár, permanent, aflitað, litað, feitt, og guð má vita hvað. Þið sem haldið annað, well af hverju veljið þið þá ekki líka sérstaka handsápu? Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað maður velur. Hvað um það! Það skiptir hinsvegar máli, þegar maður tekur hárnæringu í misgripum í búðinni. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég hef keypt marga hárnæringabrúsa...óvart og ekki komist að því fyrr en ég er að þvo mér uppúr einhverju sem ekki freyðir. Ég nota ekki einu sinni hárnæringu.
Allavegana, ég var að henda 6 fullum brúsum af hárnæringu, ég geymdi 2 eða 3 brúsa. Er ekki alveg viss. Líklega mun ég þó frekar nota handsápuna, já eða uppþvottalöginn í hallæri!
Hvað um það!

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, January 03, 2006

...sjónarspil

...ég er viss um að köttum, sem kúka og pissa í sandkassa útum alla borg, þykir það mikið sport að horfa á lítil börn borða sand.
Óþolandi bastarðar.
Þreytan og myglan, sem hefur einkennt landið síðustu daga, hefur legið á mér eins og þoka í Lundúnum. Sönnun þess lauk er ég krassaði tölvunni með því að setja ennið á miðjuhluta lyklaborðsins og hugsa um blóm.
Verð vonandi betri á næstu dögum.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter