Wednesday, April 26, 2006

...tær

...eins og af gömlum vana, skaga þær útundan teppi hér fyrir framan mig. Veit ekki hvað þeim hefur gengið til undanfarið en þær eru búnar að svitna látlaust síðan á sunnudag.
Líklega er þetta vorið, vökvun jarðar og framlenging lífs.
Já, ég held ég sé að skjóta rótum.

Alltaf þegar ég nota orðatiltækið "að gera grein fyrir" blómstra hendurnar út í fína krónu, sem 100 ára eplatré yrðu stolt af því að bera.
Í gær var ég svo kallaður vond og ómerkileg manneskja, ég gat náttúrulega ekki verið sammála þeirri greiningu.
Enda var ég tré!
...næstum því.!
Um helgina ætla ég að einbeita mér að því að laufga sálina með útiveru, auk þess að vera timbraður.

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, April 24, 2006

...af keyrslu

...heilu mannsævirnar líða án þess að fólk opni augun og lykti af altumlykjandi lífi.
...heilu árin líða án þess að án þess að kona kyssi mann.
...heilu mánuðirnir líða án þess að fólk líti upp úr skólabókunum.
...heilu vikurnar líða án þess að fólk hneykslist á nokkrum hlut.
...heilu dagarnir líða án þess að fólk fari út fyrir hússins dyr.

Í dag, hélt ég áfram minni keyrslu.
Keyrslu sem er ekkert endilega í takt við nokkra aðra manneskju. Hún endaði hins vegar á því að ég bakkaði ofaní holu, með þeim afleiðingum að bíllinn festist í óendanlegri handbremsu.
Þess vegna sit ég hér, með hvítvínsglas og súkkulaði.
Aðallega er ég þó enn að keyra. Keyra í kappi við að klára þessa færslu áður en kertaljósið, súkkulaðið og/eða hvítvínið klárast.
Ég skilgreini þessa stund semsagt sem gæðastund.
Mér er hætt við því að gleyma því að eiga svona gæðastundir, því vil ég nota tækifærið til að minna ykkur, lesendur góðir, á að gera eitthvað gott, að tilefnislausu, í tilefni hversdagsins.

Góðar stundir
Langi Sleði

Thursday, April 20, 2006

...af átu og ólifnaði

...meltingakerfið mitt er búið að vera á stórhátíðataxta í rúma viku núna. Matarboð og veisluhöld upp á hvern einasta dag í rúma viku. Eðlilegasta leiðin væri væntanlega að skrifa sig frá þessu og segja ykkur frá matseðlinum upp á hvern einasta dag.
Hvað um það!
Kvöldið í kvöld toppaði hins vegar öll önnur kvöld.
Mér var boðið í kvöldverð með tveimur milljarðamæringum, í Perlunni. Ekki oft sem menn taka það sérstaklega fram að það sé ódýrt að borða þarna. Hvað um það, samt voru þetta venjulegir menn eins og þú og ég. Læstu sig úti og ... létu þjónana opna.
Allavegana, þeir buðu mér til sín í september, þá eru þeir komnir úr fríunum. Annar ætlaði í Karabíahafið, hinn ætlaði í
villuna sína í Ástralíu.
Get ég þá ekki sagt að ég eigi deit?
Ég veit að það verður ekki kynlíf, uppúr því deiti, nema hugsanlega með þjónustustúlkunum þeirra!

Á morgun hitti ég svo aðra útlendinga, þá á Sjávarkjallaranum. Þannig að það er ekki séð fyrir endann á veisluhöldum.
Þeir spurðu reyndar hvort að ég kæmi með konu með mér... hmm... Það gæti orðið svolítið magnað blind date!

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, April 16, 2006

...af ljósi

...oft.
Er ég geng hjá glugga, grípa sjáöldur auga minna, spegilmynd. Af varkárni hef ég lært að taka henni eins og hún er.
Stundum segir hún mér aðeins að gluggarnir séu skítugir eða að ég þurfi að rétta úr bakinu en oftar endurvarpast minningar eða hugleiðingar.
Fyrir andartaki, kveikti ég á lampa sem stendur út í glugga. Í veðurbörðum rúðunum, lýstist upp andlitið og það var þá sem ég áttaði mig á því, hvernig ég ætti að segja ykkur frá trúnni.

Ég var alinn upp við það að biðja bænir fyrir svefninn, það var þó ekki þannig að fjölskyldan hafi verið tíður kirkjugestur. Það vorum við alls ekki. Í raun gerðist fátt í trúnni, fram að fermingu, við fermingu eða eftir fermingu. Það var ekki fyrr en nokkrum árum eftir fermingu, að ég, ákvað að gera tilraun og hætta að biðja bænir. Sjá hvort að það breytti einhverju í mínu lífi. Auðvitað mun ég aldrei vita, hvort sú hafi orðið raunin. En raunin varð hinsvegar sú að ég hætti að biðja bænir.
Fyrir nokkrum árum, veiktist ég svo heiftarlega. Enginn vissi hvað amaði að mér, en ég endaði á gjörgæslu með næringu í æð. Ég fór í röntgen og sneiðmyndatöku og magaspeglun og ég veit ekki hvað. Ekkert fannst. Þetta tók nærri tvo mánuði og aldrei fannst eitthvað að. En ég varð hræddur. Og þá dúkkaði blessaða barnatrúin upp og ég fór að biðja bænir.
Hvað er trúin mín þá annað en minn eiginn innri styrkur?
Trúi á Jesú Krist, hans einkason... Ég trúi á það sem hann stendur fyrir og þau mannlegu gildi sem hann boðar. Ég trúi á það sem ekki hefur enn úrelst. Ég stend við það að vilja vera góð manneskja.
Ég stend við það sjálf sem ég hef skapað með tímanum.
Ég á erfitt með að sjá hvað fermingin hefur umfram veisluna.
Það alltsaman finnst mér vera skrum.
Finnst ykkur öllum eðlilegt að 13-14 ára krakkar, skuli staðfesta kristna trú sína, í skugga sífellt stækkandi fermingagjafa?

Frænka mín fermdist um þessa páska og satt að segja veigraði ég mér við að mæta, því mér finnst fermingarveislan, vera miklu nær mammoni en nokkru öðru.
Það var þó ekki fyrr en í gær, á föstudaginn langa, sem ég varð ánægður með þá ákvörðun mína að mæta ekki.
Enginn skal dæma annars trú!
Því ætla ég ekki að dæma um annarra trú, ekki annarra en nágranna míns a.m.k. en hann flaggaði fullum fetum í sinni 15 metra háu flaggstöng.
Ætli hann hafi fermst?

Góðar stundir
Langi Sleði

Monday, April 10, 2006

...af bílamálum

...kannski.

Of sætur, of ljótur, of mjór, of skrítinn, of hreinn, of beinn, of leiðinlegur, of skemmtilegur, of tilbúinn, of óþroskaður, of rangt, of rétt, of jafnlyndur, of mislyndur.
...
Er bara hluti af því sem ég hef heyrt í gegnum árin.

Því liggur það í augum uppi að ég ætla að kaupa mér van. Það verður þá a.m.k. ekki það sem er of.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, April 08, 2006

...efadreginn

...í gær gerði ég svolítið sem ég hafði ekki gert lengi!
Ég var búinn að þrá lengi að gera þetta aftur, því þetta er bæði gaman..., já og gott.
Það má eiginlega segja að ég hafi verið í bindindi.
Í dag er ég alveg búinn í höndunum, harðsperrur í upphandleggjunum og framhandleggjunum.
Ástæðan fyrir því að ég byrjaði á þessu aftur, var að stelpa í vinnunni, endurvakti þörfina.
Ég get nú ekki sagt að ég hafi haft mikið úthald en það kemur.

Góðar stundir
Langi Sleði

Friday, April 07, 2006

...fantafínt

... Langi Sleði fór á fantafína tónleika með belgíska rokkbandinu dEUS í kvöld.
Hugsanlega var þetta líka aðalfundur hjá ýtu- og troðarafélagi Reykjavíkur. Einnig var raðað þannig í salinn að allir þeir sem höfðu afbrigðilega mikla athyglisþörf, óeðlilega litla pissublöðru og þjáðust af athyglisbresti. Voru allir fremst... eða aftast...yfirleitt voru þeir einhvers staðar á milli þessara tveggja pósta. Að hella bjór yfir tónleikagesti, enda ómögulegt að þurfa að drekka hann allan sjálf, þar sem þau myndu missa af tónleikunum.
Kannski voru þetta bara KR-ingar í píng-testi!

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, April 05, 2006

...dansnámskeið

...undanfarna þriðjudaga er Langi Sleði búinn að sækja dansnámskeið.
Hálft byrjendanámskeið í samkvæmisdönsum enda erum við ekki alveg byrjendur. Við erum nefnilega séní.
Við ákváðum að allt hálfkák væri ókúl og ef við ætluðum að komast almennilega áfram í heiminum þá yrðum við að gera þetta eins og atvinnumenn.
Nú.
Fyrir fyrsta tímann, vorum við mætt 40 mínútum fyrr.
Kennarinn rak upp stór augu þegar við gengum í salinn, klyfjuð af farangri sem sæmdi frekar 5 manna fjölskyldu í tjaldferðalagi.
Við gengum rakleiðis til búningsherbergjanna og hófum undirbúninginn.
Við byrjuðum á því, kviknakin, að sprauta brúnkuspreyji á hvort annað
Það tók 10 mínútur, með þurrktíma. Latex- og pallíettugallinn, er náttúrulega sérsniðinn og það tekur 20 mínútur að koma sér í hann.
Næstu 10 mínútur einkenndust af panikki þar sem hárgreiðslan og meikið og málningin, var ekki að tóna við litina í búningnum, en það reddaðist.
Við tókum andköf, þegar við litum yfir salinn, fullum af meðaljónum, á gallabuxum og bol.

ég: Sjitt, erum við að mislesa stöðuna eitthvað?
hún: Nei, ég get ekki séð það!
ég: Það verða engin mistök leyfð í þessum tímum, ég heimta 100% einbeitingu!
hún: Já!
...og vitiði það. Það er engum blöðum um það að fletta, við erum betri en allur hópurinn. Við gerum engin mistök. Við erum séní.
Ég varð reyndar einu sinni að beita hana hörðu, þegar það var upprifjun á ræl. Þá raknaði dreifbýlisgenið í henni við sér og hún æddi um allan salinn eins og níræð amma í peysufötum á amfetamíni.
Þess vegna segi ég ykkur, leyndardóm lífsins, sem Björgólfur er reyndar búinn að uppgötva.
You can buy your way into success
Eða þannig.

Góðar stundir
Langi Sleði

Sunday, April 02, 2006

..er það ekki merkilegt?

...að sumir vita alls ekki að Langi-Sleði, gekk í MR. Aðrir vita það... og enn aðrir hefðu giskað á það.
Þið sem eruð þau, takk!
En það er ekki það sem ég vil segja ykkur hér drukkinn eftir djamm klukkan hálffjögur á laugardagsnóttu.
Það er svolítið annað.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef óskað þess að hafa eyrun áföst pungnum, svona til að halda þeim hlýjum.
Nei, það var heldur ekki það sem ég ætlaði að segja ykkur.

Fókus, Langi, Fókus!
Kjarninn í þessari færslu er eftirfarandi.
Í MR, var eitt ritgerðarefni algengara en öll önnur.

"Aðgát skal höfð í nærveru sálar!"

Ég valdi það aldrei, hafði ekki þroska til þess og ég viðurkenni það fúslega.
En í dag...
Skil ég um hvað þetta snýst og þess vegna skrifa ég ekki um það.
Magnað hvað þversagnir og fordómar þvælast fyrir manni.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter