Wednesday, July 23, 2008

...brumbolt

...Langi Sleði var staddur á einum virtasta fundarstað Reykjavíkurborgar, nánar til tekið á Kaffivagninum.
Þar sat Langi Sleði ásamt heiðursmanni yfir rjúkandi kaffibolla og elegant smurbrauði og ræddum málefni líðandi stundar, líkt og trillukarlarnir fyrr um morguninn.
Staðurinn ber þess glöggt merki að háglans sjómennskunnar er aðeins minning veðurbarðra ellilífeyrisþega, sem reyrðu seglstakka og fóru í lopavettlinga með tveimur þumlum. Þeir allra elstu vita meira að segja enn af hverju þumlarnir voru tveir.
Kaffistamparnir, þótt hreinir séu, hverfa reglulega inn í ægilega hramma þessara hetja sem buðu veðuröflunum byrginn til að sjá sér og sínum farborða.
Uppnuminn og andaktugur yfir höfgi þessa staðar, rann manni skylda til blóðsins að tala með djúpum rómi og láta karlmannlega fram úr hófi.
Strákpjakkur sem hefði varla getað verið léttadrengur á áttæringi, nálgaðist Langa-Sleða.
pjakkur: "Halló, ertu búinn með moggann?"
pjakkur: "Er þetta mogginn í dag?"
Þá drundi í Langa Sleða: "Já og hér eru meira að segja tvö eintök...og þú skalt taka þau bæði... svona ef annað bilar"
Pjakkurinn rak upp stór augu og spurði: "hvernig ætti blaðið að bila?"
Langi Sleði (með dimmrödduðum þjósti eins og bjánaleg spurning léttadrengs átti skilið að fá): "Ég veit það ekki, ég hef aldrei lent í því að blað bili, en það sem hefur aldrei komið fyrir áður, getur alltaf komið fyrir aftur! "
Pjakkurinn var nú kominn með augu á stærð við undirskálar og
bakkaði varfærnislega út úr samtalinu með því að halda báðum eintökum moggans þétt upp að hárlausu brjósti sér.
Hann kom sér fyrir í hinum enda salarins en sóttist lesturinn seint enda hafði hann annað augað enn á Langa Sleða.
Einum beitarbala síðar, kvöddust Langi Sleði og heiðursmaðurinn með hrammahandarbandi og héldu í átt að sitt hvorum borðanum.
Léttadrengurinn hafði fengið mjólk og kleinu og var að skoða skrípóið í blaðinu.
Langi Sleði kvaddi hann með því að lyfta höfuðfatinu til hálfs enda pjakkurinn ekki hálfdrættingur og líklega bara rétt rúmlega amlóði.

Góðar stundir
Langi Sleði

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

hvernig bragðast kaffið þarna? er það salt?

10:09 AM  
Blogger Langi Sleði said...

Brimsalt... og alls ekki ósvipað því sem vænta má er maður nagar fjórða þumalinn á sjóvættum lopavettlingi

8:54 AM  
Anonymous Anonymous said...

parf ad athuga:)

3:49 PM  

Post a Comment

<< Home

free web hit counter